Stjórnsýsluhús Dalabyggðar,
    Miðbraut 11,
    370 Búðardal,
    kennitala: 510694-2019
    Sími: 430 4700

    dalir@dalir.is

Reglur vinnuskóla Dalabyggðar


I

Vinnan, vinnutími

Þátttakendum í vinnuskólanum ber að fara eftir fyrirmælum og leiðbeiningum verkstjóra og flokksstjóra hvar sem verið er að verki eða farið er um á vegum vinnuskólans.  Verkstjórum og flokksstjórum ber að gæta þess að verkefni sem unnið er að á vegum vinnuskólans, séu í samræmi við verkefni sem hæfa aldri þátttakenda og að öryggis þeirra sé gætt, sbr. reglur um vinnu barna og unglinga.

 

Verkstjórar og flokksstjórar leiðbeina þátttakendum í vinnuskólanum um vinnubrögð, um meðferð og umhirðu áhalda, um færslu vinnuskýrslna, um umgengni um húsnæði og aðstöðu vinnuskólans og eru ábyrgir fyrir því að góðri reglu sé viðhaldið á öllum sviðum.  Verkstjórar og flokksstjórar brýna fyrir þátttakendum í vinnuskólanum; vinnusemi, stundvísi og heiðarleika.

 

Vinnuskólinn hefst að jafnaði í annari viku júnímánaðar og er til loka júlímánaðar.

 

Daglegur vinnutími er kl. 8–12 og 13–15 mánudaga–fimmtudaga en föstudaga kl. 8-13.

 

Kaffitími er kl. 9:30 og er 30 mínútur.  Nemendum er ætlað að hafa með sér nesti.

II

Stundvísi

Öllum þátttakendum vinnuskólans ber að mæta stundvíslega á uppgefnum mætingatímum sem verkstjórar og flokksstjórar tilkynna um.

 

Veikindi og önnur forföll ber forráðamönnum þátttakenda í vinnuskólanum að tilkynna svo fljótt sem við verður komið til verkstjóra, flokksstjóra eða á skrifstofu sveitarfélagsins.

III

Klæðnaður og hlífðarbúnaður

Nemendur skulu vera klæddir í samræmi við verkefni sem unnið er að hverju sinni og veðurfar á hverjum tíma.  Við störf á eða við umferðarleiðir skal nota endurskinsfatnað eða vesti.

 

Vinnuskólinn leggur til öryggisstígvél, heyrnarhlífar, andlitshlífar og endurskinsvesti í samræmi við verkefni.

IV

Reglusemi

Notkun hverskonar tóbaks og annarra ávana- og fíkniefna er óheimil í vinnuskólanum, hvort sem er á vinnusvæðum eða í hléum og hvarvetna þar sem farið er um á hans vegum.

 

Allt búðarráp er óheimilt á starfstíma vinnuskólans, þ.m.t. í kaffitímum.

Notkun farsíma í vinnuskólanum er ekki heimil.  Ef brýnt er að ná til foreldra, getur þátttakandi fengið heimild hjá verkstjóra eða flokksstjóra til að hringja heim.

 

Þátttakendur eiga að ganga vel og þrifalega um þar sem þeir eru á vegum vinnuskólans og fara vel með þau áhöld sem notuð eru.

V

Almennar kröfur til þátttakenda í vinnuskólanum og viðurlög við brotum

Þegar unglingur skráir sig í vinnuskóla, er litið svo á að hann sé að sýna áhuga á því að taka þátt í starfi vinnuskólans.  Þátttakanda í vinnuskólanum ber að sinna verkefnum sem honum eru falin af alúð og vandvirkni.  Þá ber honum að sýna öðrum þátttakendum í vinnuskólanum, verkstjórum, flokksstjórum, svo og öllum öðrum fyllstu kurteisi, hvar sem unnið er að verkefnum eða farið er um á vegum vinnuskólans.

 

Ef þátttakandi í vinnuskólanum fer ekki eftir þessum reglum eða hagar sér ekki vel að öðru leyti, hafa verkstjórar og flokksstjórar heimild til að senda viðkomandi heim og skal þá foreldri/forráðamanni tilkynnt um ástæðu.  Slík brottvikning varir að jafnaði í einn dag.

 

Við endurtekin brot á reglum vinnuskólans getur verkstjóri vísað þátttakanda tímabundið úr vinnuskólanum í nokkra daga eða allt að einni viku.  Við margendurtekin brot, hefur verkstjóri heimild til þess að vísa þátttakanda alfarið úr vinnuskólanum.  Við öll slík tilvik skal tilkynna foreldri/forráðamanni viðkomandi um ástæður.

 

Reglur þessar voru samþykktar af sveitarstjórn Dalabyggðar 16. júní 2011

 

Sveinn Pálsson
Sveitarstjóri