Stjórnsýsluhús Dalabyggðar,
    Miðbraut 11,
    370 Búðardal,
    kennitala: 510694-2019
    Sími: 430 4700

    dalir@dalir.is

Reglur um refa- og minkaveiði í Dalabyggð


 

Almennt

Reglur þessar gilda um veiðar á refum og minkum innan sveitarfélagsmarka Dalabyggðar.

 

Um veiðar þessar gilda ákvæði laga nr. 64/1994, um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum, auk reglugerða sem settar eru samkvæmt þeim, einkum reglugerð nr. 437/1995, um refa- og minkaveiðar með breytingarreglugerð 207/1997.

 

Veiðimaður sem ráðinn er af sveitarfélaginu kemur sér sjálfur upp búnaði til veiðanna.  Búnaðurinn skal ekki brjóta í bága við lög og reglugerðir.  Sé komið fyrir gildrum skal það gert þannig að öðrum dýrum stafi sem minnst hætta af.

 

Refaveiði

Grenjaleit og veiðar á grenjatíma 1. maí – 31. júlí.

 

Sveitarfélagið ræður veiðimenn til grenjavinnslu á grenjatíma og greiðir þeim þóknun fyrir veidd dýr og leituð greni.  Einungis ráðnum veiðimönnum er heimilt að veiða á grenjatímabilinu. 

 

Þó geta bændur og æðarræktendur eða aðilar á þeirra vegum, skotið refi sem búfénaði eða æðarvarpi stafar bein hætta af.  Skal viðkomandi  tilkynna fulltrúa sveitarfélags um slíka veiði svo fljótt sem auðið er.  Ekki er greitt fyrir slíka veiði.

 

Við grenjaleit er ætlast til að farið sé á grenstæði sem einhverjar líkur teljast á að tófa leggi í það árið.  Ekki ætlast til að farið sé á grenstæði sem hafa ekki verið notuð svo áratugum skiptir nema vísbendingar séu um óvenjulegan tófugang.  Þó skal veiðimönnum það í sjálfsvald sett hvort þeir kíki á grenstæði á eigin vegum.

 

Veiðimenn skulu halda skrá, (nafn grenis og GPS skráningu), yfir þekkt greni og uppfæra hana ef ný greni finnast.  Þegar veiðimaður lætur af störfum fyrir Dalabyggð skal hann afhenda Dalabyggð skrána.

 

Þegar ráðinn er nýr veiðimaður afhendir sveitarfélagið honum grenjaskrá.  Sveitarfélagið lætur veiðimann hafa kort í góðum mælikvarða sem hann getur fært staðsetningu grenja inn á.

 

Veiðar á ref utan grenjatíma

Ekki verður greitt fyrir refaveiðar utan grenjatíma. 

 

Vanda skal til verka við útburð ætis. Leitast skal við að hafa hæfilega vegalengd á milli staða sem borið er út á.  Ætlast er til að staðsetning og frágangur ætis valdi útivistarfólki og öðrum sem um landið fara sem minnstum ama.

 

Jafnframt skal staðsetningin vera í samráði við fulltrúa Dalabyggðar, auk þess sem samþykki landeiganda þarf að liggja fyrir.  Fjarlægja skal æti og leifar þess og leið og hætt er að stunda veiðina. Veiðimaður skal hafa samráð við aðra veiðimenn og landeigendur þegar borið er út æti.

 

Veiðar úr ökutækjum eru bannaðar skv. lögum.

 

Minkaveiðar

Dalabyggð ræður veiðimenn með minkahunda til hefðbundinnar minkaleitar í sveitarfélaginu.  Skulu þeir að jafnaði veiða á tímabilinu 20. apríl til 30. júní og vera til reiðu ef vandamál koma upp.

 

Lögð er sérstök áhersla á að leitað sé á varplöndum og við veiðiár.  Einnig leitað með sjó, svo sem kostur er. Veiðimenn skulu vera vel tækjum búnir til veiðanna.

 

Einnig er heimilt að ráða veiðimenn til gildruveiða.  Séu gildrur lagðar fyrir mink skal þannig um þær búið að öðrum dýrum stafi sem minnst hætta af.  Ef fótbogar og dauðagildrur eru notaðar skal búa um þær þannig að minkurinn láti lífið á sem skjótastan hátt.

 

Ganga skal þannig um minkabæli að sem minnst landspjöll hljótist af.

     

Minkur sem næst lifandi skal aflífaður á sem skjótvirkastan hátt.

    

Skil á skýrslum og greiðslur

Þeir einir fá greidd skotlaun sem hafa gilt veiðikort.

 

Skottum af unnum dýrum ber að skila í áhaldahús ásamt fylgigögnum. Til þessa ber að nota sérstakar bækur frá embætti veiðistjóra. Þar skal koma fram hvar og hvenær dýr var unnið og hvenær og hvaða greni var leitað

 

Greiðslur fara ekki fram fyrr en þessum gögnum og reikningum hefur verið skilað. Þar með talið að uppfæra grenjaskrá ef ný hafa fundist. Veiðimanni ber að skila til sveitarstjórnar sundurliðuðum reikningi vegna veiðanna.

  

Sveitarstjórn ákveður við gerð fjárhagsáætlunar hámarksupphæð til refaveiða.  Ekki verður greidd hærri upphæð á yfirstandandi ári, en verði veiðin meiri en gert er ráð fyrir flyst hluti uppgjörs til næsta árs.  Kvóti verður settur á fjölda grenja sem leituð eru.

 

Greiðslur fyrir refaveiðar 1. maí-31. júlí

Upphæðir eru án virðisaukaskatts.

Fyrir hvert unnið fullorðið grendýr

12.000 kr

Fyrir hvern unnin yrðling

12.000 kr

Fyrir hvert leitað greni

2.000 kr

 

Skýrslum og skottum af dýrum sem unnin eru á þessum tíma skal skila eigi síðar en 10. sept. Ekki verður greitt ef skýrslur berast eftir tilsettan tíma.

 

Greiðslur fyrir minkaveiðar

Greiðslur eru samkvæmt viðmiðunartaxta Umhverfisstofnunar.

 

Veiðimönnum með samning skal greitt fyrir unnið dýr, vinnu og akstur.    Öðrum skal greitt fyrir hvert unnið dýr.

 

Skýrslum og skottum af dýrum sem unnin eru skal skila eigi síðar en 10. sept. Ekki verður greitt ef skýrslur berast eftir tilsettan tíma.

 

Samþykkt af byggðarráði 3. apríl 2012

Samþykkt á fundi sveitarstjórnar 2. maí 2012.