Stjórnsýsluhús Dalabyggðar,
    Miðbraut 11,
    370 Búðardal,
    kennitala: 510694-2019
    Sími: 430 4700

    dalir@dalir.is

Reglur um stuðning við nema í leikskólakennarafræðum


 

Reglur þessar gilda eingöngu um nema í Dalabyggð sem leggja stund á háskólanám í leikskólakennarafræðum og annaðhvort vinna í leikskóla Auðarskóla eða hafa áform um að gera það.  

 

Markmiðið með reglunum er að fjölga leikskólakennurum  í leikskóla Auðarskóla þannig að þeir verði 2/3 starfsmanna.

 

1. gr.

Styrkthæft nám er:

·  Tveggja ára diplómanám í leikskólafræðum í háskóla; bæði staðbundið nám og fjarnám.

· Leikskólakennaranám í háskóla; bæði staðbundið nám og fjarnám.

           

2. gr.

Umsækjandi skal eiga lögheimili í Dalabyggð.  Umsókn um styrk skal berast bæjarráði mánuði fyrir upphaf haust- eða vorannar á þar til gerðu umsóknarblaði*.  Í umsókninni skulu koma fram nákvæmar upplýsingar um fyrirhugað nám, námstíma og starfsferil umsækjanda. Ber umsækjanda að skila staðfestingu um skólavist með umsókninni eða strax og staðfesting liggur fyrir.  Sé umsókn staðfest gerir skólastjóri sérstakan skriflegan samning við viðkomandi, sem gildir í eitt ár í senn.

* Sérstakt umsóknareyðublað skal vera aðgengilegt á vefsvæði Dalabyggðar/Auðarskóla.

3. gr.

Stuðningur við nema er fjölþættur og fer eftir því hvort viðkomandi nemi er starfsmaður í leikskólanum eða ekki.  Stuðningur er bundinn við að minnst 10 ECTS einingar séu teknar á hverri önn.

 

Starfsmaður á leikskóla (60% +)

Ekki starfsmaður

Laun í staðbundnum lotum og æfingakennslu í leikskólum.

X

 

Eingreiðslur 1. sept. og 1. jan. hvert námsár. *

75.000 í hvort sinn

40.000 í hvort sinn

Aðgangur að tölvukerfum Auðarskóla og Office 365

X

 

Aðgangur að vinnu- og námsaðstöðu í skóla; prentun, ljósritun, interneti og fl.

X

X

* Eingreiðslum eru ætlað til að mæta að einhvejru leyti kostnaði sem verður til vegna námsins, svo sem; skólagjöldum, akstri og bókakaupum. 

 

4. gr.

Að öllu jöfnu er ekki  hægt að njóta stuðnings lengur en sem nemur þeim tíma sem gefinn er upp af viðkomandi skólastofnun sem eðlileg námsframvinda, enda sé árangur með eðlilegum hætti. Tefjist nám vegna sérstakra aðstæðna, eða vegna þess að viðkomandi er starfandi í leikskólanum framlengist stuðningurinn. Upplýsingum um námsframvindu hverrar annar skal komið reglulega til skólastjóra. 

 

5. gr.

Styrkþegi skuldbindur sig til að starfa við leikskóla Auðarskóla  í a.m.k. tvö ár eftir að námi lýkur hafi hann verið þar starfsmaður á námstíma en í a.m.k. þrjú ár hafi hann ekki starfað við skólann. Starfshlutfall þarf að vera minnst 75% . Hætti starfsmaður störfum hjá bænum innan áðurnefnds tíma , eða ljúki hann ekki námi, hefur Dalabyggð heimild til þess að krefjast endurgreiðslu á veittum styrk frá síðasta skólaári nemans.

 

6. gr.

Fjöldi starfsmanna sem nýtur stuðnings til náms í leikskólakennarafræðum ræðst af þörf sveitarfélagsins  fyrir faglært starfsfólk á viðkomandi sviði, á hverjum tíma, og áskilur byggðarráð sér rétt til að hafna umsóknum.  Skólastjóri getur hafnað nema um starf við leikskólann, sé hann þegar svo mikið mannaður nemum að starfssemin beri ekki forföll þeirra allra.

 

7. gr.

Verði verulegar breytingar á fyrirkomulagi fjarnáms eða á persónulegum högum nema getur sveitarstjóri í umboði byggðaráðs veitt frávik frá reglum þessum.

 

8. gr.

Byggðaráð úrskurðar í álitamálum sem upp kunna að koma við framkvæmd þessara reglna.