Ungmennaráð Dalabyggðar - erindisbréf
Stjórnskipuleg staða
Ungmennaráð Dalabyggðar er skipað samkvæmt 2. mgr. 11. gr. æskulýðslaga nr. 70/2007 og heyrir undir fræðslunefnd Dalabyggðar.
Hlutverk og markmið
Að vera sveitarstjórn til ráðgjafar um málefni ungs fólks í sveitarfélaginu.
Að gæta hagsmuna, koma skoðunum og tillögum ungs fólks til skila til viðeigandi aðila í stjórnkerfi sveitarfélagins.
Að veita ungu fólki fræðslu og þjálfun í lýðræðislegum vinnubrögðum.
Að efla tengsl ungmenna í sveitarfélaginu og auka tengsl þeirra við stjórnkerfi sveitarfélagins.
Skipan ráðsins
Í ungmennaráði geta orðið allir þeir sem eiga lögheimili í Dalabyggð og eru á aldrinum 14 – 20 ára. Kjósa verður fulltrúa í stjórn ungmennaráðs fyrir 15. september ár hvert. Stjórn ungmennaráðs skipa 4 fulltrúar; formaður, varaformaður, ritari og varamaður. Hver fulltrúi getur í mesta lagi setið í stjórn ungmennaráðs samfellt í tvö ár.
Fræðslunefnd staðfestir val í ungmennaráð skv. ákvæðum sveitarstjórnalaga og samþykktar um stjórn og fundarsköp Dalabyggðar á reglulegum fundi í október ár hvert.
Auk kjörinna fulltrúa eiga formaður fræðslunefndar og sveitarstjóri rétt á að sitja fundi ráðsins með málfrelsi og tillögurétt.
Starfshættir
Ungmennaráð Dalabyggðar starfar með og undir leiðsögn fræðslunefndar. Formaður fræðslunefndar er tengiliður við sveitarstjórn og er til aðstoðar ef þurfa þykir.
Fundir ungmennaráðs er opnir öllum ungmennum Dalabyggðar og skulu auglýstir eigi síðar en fimm sólahringum fyrir fund.
Á fundi ungmennaráðs er kosinn formaður, varaformaður, ritari, einn á aldrinum 14 – 16 ára og tveir á aldrinum 17 – 20 ára. Varamaður er valin á aldrinum 14 – 20 ára.
Ungmennaráð skal eigi funda sjaldnar en tvisvar á ári, þar af einu sinni með sveitarstjórn.
Í störfum sínum skal ungmennaráð taka mið af lögum og reglum, sem undir starfssvið þess heyrir og gildir hverju sinni. Þá skal ráðið fylgja samþykkt um stjórn og fundarsköp Dalabyggðar.
Fyrst samþykkt í fræðslunefnd 3. nóv. 2011, af stjórn UDN 8. nóv. 2011 og af sveitarstjórn Dalabyggðar 15. nóvember 2011
Breytingar samþykktar af fræðslunefnd 3. apríl 2014 og af sveitarstjórn 15. apríl 2014