Stjórnsýsluhús Dalabyggðar,
    Miðbraut 11,
    370 Búðardal,
    kennitala: 510694-2019
    Sími: 430 4700

    dalir@dalir.is

Barnaverndarnefnd Borgarfjarðar og Dala - erindisbréf


 

Stjórnskipuleg staða og skipan

Barnaverndarnefnd Borgarfjarðar og Dala starfar á vegum sveitarstjórnar Borgarbyggðar, Dalabyggðar og Hvalfjarðarsveitar, sbr. 10. grein barnaverndarlaga nr. 80/2002.

 

Í Barnaverndarnefnd eiga sæti 5 fulltrúar. Að afloknum sveitarstjórnarkosningum tilnefnir félagsmálanefnd Borgarbyggðar 3 fulltrúa, félagsmálanefnd  Dalabyggðar 1 fulltrúa og félagsmálanefnd Hvalfjarðarsveitar 1 fulltrúa úr sínum röðum í nefndina  Þá tilnefna nefndirnar jafn marga til vara. Tilnefningar skulu staðfestar af sveitarstjórnum.

 

Kjörtímabil barnaverndarnefndar er hið sama og sveitarstjórna. Nefndin kýs sér formann og varaformann á fyrsta fundi sínum. Félagsmálastjóri Borgarbyggðar starfar með nefndinni og er ritari hennar.

 

Verkefni

Um verkefni barnaverndarnefndar fer skv. barnaverndarlögum nr. 80/2002, barnalögum, nr. 20/1992 og ættleiðingarlögum nr. 130/1999. Nefndin mótar stefnu í málaflokknum, tekur ákvarðanir og hefur eftirlit með því að samþykktum hennar og stefnumörkun sé fylgt.

 

Starfshættir

Barnaverndarnefnd kemur saman eftir þörfum hverju sinni, en skal þó koma saman a.m.k. tvisvar á ári.

 

Félagsmálastjóri undirbýr fundi í barnaverndarnefnd í samráði við formann nefndarinnar og sér einnig um fundarboðun. Fundarboðun skal vera skrifleg og tilgreina fundarstað, tíma og dagskrá og send út eigi síðar en þremur sólarhringum fyrir fund.

 

Formaður stýrir fundum nefndarinnar.

 

Nefndin skal halda gerðabók.  Félagsmálastjóri skal færa fundargerð í gerðabókina. Í gerðabók skal skrá hvar og hvenær fundur er haldinn og hverjir sitja hann. Þá skal skrá einstök mál, sem tekin eru fyrir á fundi og afgreiðslu þeirra. Í fundarlok skal fundargerð lesin upp og allir viðstaddir nefndarmenn undirrita hana.

Gerðabókina skal félagsmálastjóri varðveita á tryggum stað.

 

Félagsmálastjóri skal sitja fundi nefndarinnar með málfrelsi og tillögurétti. Þá getur nefndin boðað aðra þá til fundar sem hún telur þörf á hverju sinni.

 

Réttindi og skyldur

Um réttindi og skyldur nefndarmanna gilda ákvæði sveitarstjórnarlaga og barnaverndarlaga.

 

Nefndarmanni er skylt að sækja fundi nema lögmæt forföll hamli.  Skal hann boða varamann sinn og láta formann eða starfsmann nefndarinnar vita um forföll með góðum fyrirvara.

 

Fundarmenn eru bundnir þagnarskyldu vegna mála sem þeir fá vitneskju um í starfi sínu fyrir barnaverndarnefnd, sbr. 4. grein barnaverndarlaga nr. 80/2002.

 

Um hæfi nefndarmanna og starfsmanna fer skv. stjórnsýslulögum nr. 30/1993, 3., 4., 5. og 6. grein.

 

Hvert sveitarfélag fyrir sig ber kostnað af störfum sinna fulltrúa í nefndinni.

 

Lög og reglugerðir

Í störfum sínum skal nefndin taka mið af þeim lögum og reglugerðum sem undir starfssvið hennar heyrir. 

 

 

Samþykkt í Barnaverndarnefnd Borgarfjarðar og Dala 8. júlí 2003.

Staðfest í bæjarstjórn Borgarbyggðar 31. júlí 2003.

Staðfest í  sveitarstjórn Borgarfjarðarsveitar 14. ágúst 2003.

Staðfest í sveitarstjórn Hvítársíðuhrepps 1. ágúst 2003.

Staðfest í sveitarstjórn Skorradalshrepps 13. ágúst 2003.

Staðfest í sveitarstjórn Dalabyggðar 16. júní 2003.

 

Með bréfi dags. 17. desember 2003 óskuðu Innri Akraneshreppur, Skilamannahreppur, Hvalfjarðarstrandarhreppur og Leirár- og Melahreppur eftir aðild að nefndinni þannig að þeir skipuðu saman 1 fulltrúa í nefndina.

Aðild þeirra var samþykkt af  sveitarfélögunum, er fyrir stóðu að nefndinni, hverju fyrir sig í janúar 2004.

 

Samþykkt svo breytt á fundi barnaverndarnefndar Borgarfjarðar og Dala 12. mars 2007.